Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Tugmilljóna króna styrkur Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins hlýtur að vera ólöglegur

Eins og margir aðrir þá gluggaði ég í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þar er margt áhugavert að finna.

Það sem meðal annars vakti athygli mína var að umdeildur tugmilljóna króna styrkur Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins berst ekki frá bankanum fyrr en árið 2007. Það er eftir að lög um fjármál stjórnmálasamtaka tóku gildi þann 1. janúar 2007.

Skv. frétt Vísis þá hefur Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins "staðfest að styrkirnir hafi verið útgefnir og skráðir í bókhaldi Sjálfstæðisflokksins árið 2006 þótt sá síðari hafi ekki borist frá bankanum fyrr en í ársbyrjun 2007 og hafi þá fyrir mistök verið lagður inn á reikning SUS." 

Er eðlilegt að styrkurinn sé "skráður" í bókhaldi Sjálfstæðisflokksins 2006 þegar hann berst ekki fyrr en árið 2007 til þess eins að fara á svig við lögin eða er ekki styrkurinn einfaldlega ólöglegur?

Og varla eru það "mistök" að bæði stórir styrkir frá Landsbankanum og Kaupþingi eru lagðir inn á reikninga SUS árin 2005, 2006 og 2007. Það eru þá ansi mörg "mistök".


Smart myndahilla

Þar sem ég er nýflutt og er að koma mér fyrir í íbúðinni minni þá spái ég reglulega í allskonar flottum og skemmtilegum hugmyndum sem hægt er framkvæma fyrir lítinn pening.

Hér er ein hugmynd frá Bolig að smart myndahillu.

 

 

 


Nýr fítus í Photoshop CS5?

Hvað ætli gerist þegar þú ýtir á "delete" takkann í næstu útgáfu af Photoshop? Adobe er að þróa nýjan fítus sem kallast "Content-Aware Fill".


Fjármálaráðherra í afneitun?

Hvernig væri nú að Steingrímur Jóhann myndi beita sér fyrir því að ræða stöðu þjóðarbúsins með því að koma þeirri umræðu á dagskrá þingsins og haft þá þingfund í stað þess að fresta honum í gær?

Hann gæti líka gert skyldu sína sem fjármálaráðherra upplýst um hina raunverulegu stöðu og jafnvel opnað dulkóðaða herbergið með skýrslunni frá Oliver Wyman sem einmitt varpar ljósi á stöðuna. Hvernig væri að upplýsa þjóðina um með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar sér að skera niður.

Ætli það sé ekki bara fjármálaráðherra sem er í afneitun?

P.S. Ætli hver sem er geti látið breyta fyrirsögnum hjá mbl.is eða bara starfsmenn VG???


mbl.is Framsóknarmenn í afneitun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er skýrslan?

Af hverju er ekki hægt að birta þessa blessuðu skýrslu? Er eitthvað að fela?

Í frétt Morgunblaðsins 15. apríl sl. segir:

"Fjármálafyrirtækið Oliver Wyman mun skila skýrslu um samhæft endurmat á Nýja Landsbankanum (NBI), Nýja Kaupþingi og Íslandsbanka eigi síðar en á miðnætti í dag, samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu (FME). Heimildir Morgunblaðsins herma að kynning verði unnin upp úr skýrslunni og hún gerð opinber í kjölfarið. Það gæti gerst strax á morgun. "

Ég spyr aftur... af hverju er ekki búið að birta þessa skýrslu sem átti að birta 15. apríl?

"Þegar skýrslu Oliver Wyman hefur verið skilað inn eiga formlega viðræður um skiptingu eigna milli gömlu og nýju bankanna að hefjast.

Þær munu fara fram á milli ráðgjafa stjórnvalda, sem er enska ráðgjafarfyrirtækið Hawkpoint, og þriggja alþjóðlegra ráðgjafa sem skilanefndir bankanna hafa ráðið til að sjá um hagsmuni kröfuhafa þeirra. Stefnt er að því að þessum viðræðum ljúki í síðasta lagi 18. maí næstkomandi.

Ef ekki tekst að semja um niðurstöðu á þeim tíma er hluti kröfuhafanna reiðubúinn að stefna ríkinu og bönkunum til að tryggja hagsmuni sína."

Oliver Wyman skilaði inn skýrslu um endurmat á bönkunum á miðnætti 15. apríl sl. Hluti kröfuhafa er reiðubúinn að stefna ríkinu og bönkunum ef ekki er búið að semja um skiptingu eigna milli gömlu og nýju bankanna. Megum við einhvern tíma missa? Eru þessar formlegu viðræðu hafnar?

Af hverju er þessum spurningum ekki svarað af ráðamönnum þjóðarinnar heldur kjósa þeir að snúa út úr og svara ekki beint?

Við kjósum ekki eftir á!

 


mbl.is Skýrsla ekki birt en forsendur skýrðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað á þá að gera???

Það er kominn tími til að ríkisstjórnin segi hvað hún vilji gera til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimila í stað þess að slá tillögur annarra út af borðinu án sérstaks rökstuðnings. Við þessar aðstæður er svo sem engin leið sérlega góð en hins vegar er alveg ljóst að eitthvað þarf að gera og það strax. Tillagan um 20% niðurfellingu skulda með mögulegu hámarki er sú eina sem hefur verið lögð fram síðan hrunið varð (felur í raun í sér það sama og að færa vísitöluna aftur fyrir hrun en virkar jafnfram á erlend lán og lán sem ekki eru verðtryggð). 

Kostnaðarvitund þeirra Jóhönnu og Steingríms virðist svo sem ekki upp á marga fiska. Nærtækasta dæmið er um stjórnlagaþing þar sem stjórnarþingmenn slóu frumvarp Framsóknar út af borðinu vegna þess að það þótti "of dýrt" sjá http://www.visir.is/article/20090213/FRETTIR01/623024197 (áætlaður kostnaður 2-300 milljónir) en forsætisráðherra þurfti að láta semja fyrir sig og ríkisstjórnina nýtt frumvarp sem reynist nú vera þrisvar til fjórum sinnum dýrara (c.a. 1.200-2.200 milljónir skv. útreikningum Fjármálaráðuneytisins).


mbl.is Húsráð Tryggva Þórs þykja vond
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunverulegar breytingar

Nú sjáum við fram á raunverulegan möguleika að koma þessari óstarfhæfu og aðgerðarlausu ríkisstjórn frá. Nýr formaður Framsóknarflokksins stimplar sig rækilega inn með útspili sínu að verja minnihlutastjórn vinstri flokkanna vantrausti á meðan alþingiskosningar verða undirbúnar.

Þetta tilboð er háð nokkrum skilyrðum.  Í fyrsta lagi að farið verði að kröfu þjóðarinnar um kosningar og þær fari fram eigi seinna en 25. apríl næstkomandi. Lýðræðislegar kosningar eru grundvöllur þess lýðveldis sem við búum í. Einnig að ráðist verði strax í aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili í landinu og bæta rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs. Í því felist meðal annars að mörkuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar. Jafnframt verði komið á stjórnlagaþingi sem semji nýja stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Framsóknarmenn hljóta einnig að gera kröfu um uppstokkun í stjórnkerfinu til að vekja aftur tiltrú almennings á helstu stofnunum þjóðarinnar. Þar á meðal að stjórn Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins fari frá.

Framsóknarflokkurinn er með þessu að sanna það fyrir þjóðinni að raunverulegar breytingar hafa átt sér stað. Nú skal hlusta í stað þess að tala og aðgerðir boðaðar í stað aðgerðaleysis. Framsóknarflokkurinn hefur sinnt kallinu um endurnýjun og axlar nú sína ábyrgð með því að fara að vilja þjóðarinnar um kosningar og er tilbúinn til að verja minnihlutastjórn í millitíðinni í stað þess að setjast í ríkisstjórn. Það er upphaf nýrra tíma í íslenskum stjórnmálum undir forystu nýrrar Framsóknar.

Nú er aðeins og bíða og sjá hvort Samfylkingin hafi vilja og þor til að taka þátt í þessum breytingum!

Jólakveðja

jolakvedja

Skattahækkanir

Það er ekki einungis verið að boða 1% hækkun á tekjuskatti þessa dagana. Sveitarfélögum er einnig veitt heimild til hækkunar á útsvarsprósentu til að koma til móts við fyrirhugaða niðurfellingu á aukaframlagi úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem á þessu ári nam 1.400 milljónum. Í tilkynningu frá ríkisstjórninni kemur fram að hækkun útsvars sveitarfélaga komi til móts við aukaframlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem að „óbreyttu munu falla niður um næstu áramót.“ 

Nú er búið að samþykkja 12,5% hækkun á áfengis- og tóbaksgjöldum og í ofanálagt er enn verið að auka töluvert álögur á bifreiðaeigendur og atvinnurekendur með 12,5% hækkun á olíugjaldi og kílómetragjaldi, vörugjaldi af ökutækjum og eldsneyti sem líklega fer beint út í verðlagið og ekki er á bætandi.

Rökstuðningur fyrir þessu er hin hefðbundni frasi... vísitöluhækkun! A.m.k. er ekki hægt að réttlæta þessa hækkun þar sem verið er að að standa straum af auknum kostnaði við vegagerð og viðhald vega. Því samkvæmt drögum að fjárlagafrumvarpi 2009 er verið að skerða opinberar framkvæmdir um 11 milljarða, og þar af er helmingur í samgöngumálum.

Fjárhæð olíugjalds var 41 kr. á hvern lítra af olíu en verður 46,12 kr og hækkar um 5,12 kr. á hvern lítra. Kílómetragjald af gjaldskyldum bifreiðum hækkar einnig samsvarandi.

Bifreiðagjald á hverju gjaldtímabili var 6,83 kr. en verður 7,68 kr. fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar allt að 1.000 kg. Gjald verður 10,36 fyrir hvert kg af eigin þyngd bifreiðar umfram það að 3.000 kg en var 9,21 kr. Vörugjald af hverjum lítra af bensíni hækkar úr 9,28 kr. í 10.44 kr.

Með kveðju frá ríkisstjórninni!


mbl.is Áfengisverð hækkar ekki strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilur ekki...

Geir segist ekki skilja hvað sé í gangi hjá Framsóknarflokknum. Ekki skil ég hvað er í gangi hjá íhaldinu, krötunum, hjá Geir eða hjá ríkisstjórninni í heild sinni... en hver skilur það svo sem? Geir segir að það sé ekkert sem kalli á pólitískar afsagnir. Ég væri nú til í að ræða það aðeins... og eflaust fleiri... enda ótalmörg dæmi sem hægt er að benda á.

En til að þetta skýra aðeins fyrir Hr. Haarde... þá er endurnýjun í gangi hjá Framsóknarflokknum. Endurnýjun sem kallað er eftir, ekki bara af framsóknarmönnum heldur fólki almennt. Mikil undiralda er í samfélaginu vegna þess sem á undan er gengið og hávær krafa um breytingar... nýja tíma með breyttum áherslum, Hið nýja Ísland! Til að svo geti orðið þurfum við fyrst að breyta pólitíkinni. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér... heldur þarf vilja, bæði til að hlusta og til að meðtaka skilaboðin.

Hvar sem fólk stendur í pólitík, þá þarf að gefa nýju fólki tækifæri á að byggja upp á nýjum grunni. En það fólk þarf líka að fá að vinna á sínum forsendum, með hreinan skjöld en ekki með byrðar fortíðar á herðum sér. Annars mun fólk ekki gefa sig í verkefnið.
mbl.is Ekkert kallar á afsagnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband