Leita í fréttum mbl.is

Raunverulegar breytingar

Nú sjáum við fram á raunverulegan möguleika að koma þessari óstarfhæfu og aðgerðarlausu ríkisstjórn frá. Nýr formaður Framsóknarflokksins stimplar sig rækilega inn með útspili sínu að verja minnihlutastjórn vinstri flokkanna vantrausti á meðan alþingiskosningar verða undirbúnar.

Þetta tilboð er háð nokkrum skilyrðum.  Í fyrsta lagi að farið verði að kröfu þjóðarinnar um kosningar og þær fari fram eigi seinna en 25. apríl næstkomandi. Lýðræðislegar kosningar eru grundvöllur þess lýðveldis sem við búum í. Einnig að ráðist verði strax í aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili í landinu og bæta rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs. Í því felist meðal annars að mörkuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar. Jafnframt verði komið á stjórnlagaþingi sem semji nýja stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Framsóknarmenn hljóta einnig að gera kröfu um uppstokkun í stjórnkerfinu til að vekja aftur tiltrú almennings á helstu stofnunum þjóðarinnar. Þar á meðal að stjórn Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins fari frá.

Framsóknarflokkurinn er með þessu að sanna það fyrir þjóðinni að raunverulegar breytingar hafa átt sér stað. Nú skal hlusta í stað þess að tala og aðgerðir boðaðar í stað aðgerðaleysis. Framsóknarflokkurinn hefur sinnt kallinu um endurnýjun og axlar nú sína ábyrgð með því að fara að vilja þjóðarinnar um kosningar og er tilbúinn til að verja minnihlutastjórn í millitíðinni í stað þess að setjast í ríkisstjórn. Það er upphaf nýrra tíma í íslenskum stjórnmálum undir forystu nýrrar Framsóknar.

Nú er aðeins og bíða og sjá hvort Samfylkingin hafi vilja og þor til að taka þátt í þessum breytingum!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband